Sumarexem í hestum er ofnæmi fyrir próteinum (ofnæmisvökum) í munnvatni smámýstegunda, (Culicoides spp.) sem sjúga blóð úr hrossum. Þær tegundir lifa ekki á Íslandi og sjúkdómurinn því óþekktur hér á landi. Ofnæmið er hins vegar alvarlegt vandamál í íslenskum hestum sem fluttir hafa verið úr landi. Yfir 20 mismunandi ofnæmisvakar hafa verið einangraðir og framleiddir sem endurröðuð prótein. Fylgst var með mótefnasvari 16 hesta sem fluttir voru frá Íslandi á Culicoides flugusvæði í Íþöku í Bandaríkjunum. Níu af hestunum fengu sumarexem (56%). IgG mótefna undirflokkar í blóði gegn endurröðuðum ofnæmisvökum voru mældir. Hægt er nota IgG5 og IgG3/5 mótefnasvörun gegn tveimur ofnæmisvökunum, Cul o 2 og Cul o 3 til að staðfesta klíníska greiningu á sumarexemi og mögulega má nota Cul o 2 sérvirk IgG3/5 mótefni til þess að segja fyrir um hvaða hestar eru líklegir að fá sumarexem.
Sjá eftirfarandi grein: Cul o 2 specific IgG3/5 antibodies predicted Culicoides hypersensitivity in a group imported Icelandic horses. Fahad Raza, Renata Ivanek, Heather Freer, Dania Reiche, Horst Rose, Sigurbjörg Torsteinsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Sigríður Björnsdóttir, Bettina Wagner. BMC Vet Res. 2020 Aug 10;16(1):283.