Listmunir Keldna

Duldir kraftar

Málverk eftir Georg Douglas.

Gefið Tilraunastöð H.Í í meinafræði að Keldum í minningu Guðmundar Péturssonar og Guðmundar Georgssonar þann 13. október 2017.

Image
"Duldir kraftar" málverk eftir Georg Douglas

Íslenskur stóll

"Höfðinginn", hannaður af Gunnari H. Guðmundssyni, framleiddur hjá Kristjáni Siggeirssyni árið 1961. Frumgerð þessa stóls vann til verðlauna í München 1960. Stólnum fylgir borð með svipuðu sniði, lágt með ,,asymmetríska" þverfætur.

Image
Stóll "Höfðinginn"

Stálstóll

Fallegur tré/stálstóll á bókasafni. Hönnuður óþekktur en stóllinn er talinn norræn hönnun.

Image
Stálstóll

Handrið

Járnhandrið á bókasafninu er líklega hannað af Þorvaldi Skúlasyni. Jón Gunnar Árnason var blikksmiður á þessum tíma og setti það upp, en hannaði það ekki.

Image
Handrið

Koparlágmyndir

Á hluta handriðsins á bókasafninu eru lágmyndir úr kopar gerðar af Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara

Image
Koparlágmyndir

Bókasafnið

Séð yfir neðri og efri sal bókasafnsins. Húsameistari ríkisins Hannes Davíðsson arkitekt teiknaði vinnubyggingar að Keldum, dýrahús og íbúðarhús forstöðumanns. Var fyrsta byggingin tekin í notkun 1948 og hófst þá starfsemi stofnunarinnar. Við hesthús og hlöðu var hafist handa 1954 og við nýbyggingu til aukningar á húsakynnum fyrir rannsóknarstörf var lokið árið 1965. Bókasafnið flutti í þá byggingu árið 1964 en 1965 var frágangi lokið. Bókasafnið þótti höfuðprýði stofnunarinnar og var jafnframt hugsað sem lestrar-, fyrirlestra- og fundarsalur. Það er enn í upprunalegri mynd og hefur verið friðað

Image
Bókasafnið

Rauðhetta

Málverk eftir Jóhann Briem.

Á norðurvegg bókasafnsins er málverk eftir Jóhann Briem. Myndin heitir Rauðhetta og er 90x115 cm. Una Jóhannesdóttir ekkja Björns Sigurðssonar keypti málverkið og gaf Keldum til minningar um Björn þegar hann hefði orðið fimmtugur 3. mars 1963.

Image
Rauðhetta

Fyrirlestrarsalur

Fyrirlestrarsalur á efri hæð bókasafnsins

Image
Fyrirlestrarsalur

Veggskúlptúr

Veggskúlptúr eftir Jón Gunnar Árnason (1931 - 1989).

Hann mun hafa gert verkið sem hangir á innveggnum á neðri hæð bókasafnsins meðan hann var að vinna við handriðið á bókasafninu og sennilega hefur það verið upphafið að listamannsferli hans. Það hékk þarna í mörg ár áður en Guðmundur Pétursson lét Keldur kaupa verkið. Veggmyndin ber heitið: Svo er margt sinnið sem skinnið (haft er eftir Páli Agnari Pálssyni að fyrirmyndin væri innyfli úr hval). Á skúlptúrnum eru litlar málmplötur sem hreyfa má og breyta að vild.

Image
Veggskúlptúr

Brjóstmynd

Brjóstmynd af Birni Sigurðssyni (3.3.1913 - 16.10.1959), fyrsta forstöðumanni Tilraunastöðvarinnar að Keldum, gerð af Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara.

Image
Brjóstmynd af Birni Sigurðssyni

Veggmynd

Veggmynd eftir Þorvald Skúlason listmálara (30. apríl 1906 – 30. ágúst 1984).

Veggmyndin var máluð beint á vegg þáverandi kaffistofu í húsi 1. Þessi kaffistofa var síðar (1990) innréttuð sem rannsóknastofa fyrir bóluefnaframleiðslu. Þil var þá sett yfir verkið og er það því ekki sýnilegt í dag.

Image
Veggmynd

Hallgerður gefur Gunnari lokk

Stytta úr rekaviði eftir Sæmund Valdimarsson (1918 - 2008).

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir gaf Fiskahúsi á Keldum verkið árið 1992 með þakklæti til samstarfsmanna vegna viðurkenningar sem Rótarýhreyfingin á Íslandi veitti henni fyrir örverufræðirannsóknir. Textinn sem Sæmundur Valdimarsson skrifaði með styttunni er eftirfarandi: Brot úr Hallgerðar sögu langbrókar: Nú hleypur Þorbrandur Þorleiksson upp á þekjuna og heggur í sundur bogastrenginn Gunnars. Gunnar mælti: „Nú fór illa því aldrei hefðu þeir unnið mig meðan ég kom boganum við“. Hallgerður svarar: “ Vegna fornrar ástar okkar mun ég gefa þér lokka tvo úr hári mínu og munum við móðir þín snúa þá í bogastreng---„

Image
Hallgerður

Portrett av en ganske mager steinbit

Portrett av en ganske mager steinbit eftir Harald Kryvi.

Professor Harld Kryvi er höfundur verksins.

Listaverkið var gefið af af dr. Tor Atle Mo, dýralækni og sérfræðingi  í sníkjudýrasjúkdómum, Veterinærinstituttet í Osló.

Tor Atle sótti alþjóðalega ráðstefnu Tilraunastöðvarinnar á Keldum árið 2008 (International Conference on Fish Diseases and Fish Immunology), sem var haldin í tilefni 60 ára afmælis Tilraunastöðvarinnar,  og færði stofnuninni listaverkið að gjöf við það tækifæri.

Image
Listaverk af steinbít eftir Harald Kryvi