Undanfarna áratugi hafa fjölbreytilegar rannsóknir verið gerðar á sníkjudýrafánu landsins. Meðal annars hefur sjónum verið beint að ögðum (Trematoda) en það eru ormar með flókna lífsferla þar sem þroskaferill þessara sníkjudýra hefst alltaf í einhverjum snigli, sem annað hvort lifir í ferskvatni eða í sjó.
Við rannsóknir á sundmannakláða og leit að blóðögðulirfum í ferskvatnssniglum fundust fyrir um 20 árum mjög stórar og sérkennilegar lirfur í snúðbobbanum Gyraulus parvus, litlum, snigli sem einungis finnst í nokkrum vötnum á Íslandi. Rannsóknir hafa sýnt að þarna var á ferðinni áður óþekkt ögðutegund, Apatemon sp. 6. Tegundinni hefur nú verið lýst í vísindaheiminum og er nánar fjallað um hana í nýútkominni vísindagrein:
Faltýnková, A., Kudlai, O., Pantoja, C. et al. Prey-mimetism in cercariae of Apatemon (Digenea, Strigeidae) in freshwater in northern latitudes. Parasitol Res (2023). https://doi.org/10.1007/s00436-023-07779-6
Snúðbobbar sem hýsa þessar lirfu, lifa á gróðri í Helgavogi á Mývatni og eru þar algengir. Lirfur sem synda fullþroskaðar út úr smituðum snúðbobba hreyfa sig með afar sérstökum hætti eins og sjá má í þessu myndbandi. Hreyfingarnar hafa vísast þróast til að fanga athygli silungsseiða eða hornsíla sem synda um í vatninu í fæðuleit. Gleypi fiskur lirfuna losnar fremsti hlutinn frá þessum stóra og áberandi sundhala, en lirfan sjálf (örsmá í þessum samanburði) býr um sig í þolhjúp í meltingarvegi. Þolhjúpurinn rofnar utan af hjúplirfunni þegar fugl étur fiskinn, agðan vex upp á fullorðinsstig, verður kynþroska og tekur í framhaldinu til við að verpa eggjum. Lífsferillinn lokast þegar egg ögðunnar berast með driti fuglsins út í vatnið í námunda við snúðbobbana þannig að sniglarnir ná að smitast. Enn er óvíst hvaða fiskar og fuglar það eru sem gegna hlutverki í þessum lífsferli.
Hér að neðan er mynd af snúðbobba (mynd: Karl Skírnisson).