Dr Eliane Marti við Dýrasjúkdómastofnunina í Bern í Sviss fékk í síðasta mánuði fjögurra ára rannsóknarstyrk frá Svissneska Rannsóknarsjóðnum (Swiss National Foundation) fyrir verkefnið : Meina- og ónæmisfræðileg ásýnd ofnæmissjúkdóma í hrossum. Meðumsækjandi um styrkinn var Dr. Sigríður Jónsdóttir á Keldum. Rannsóknarhópur Dr. Eliane Marti hefur ásamt sumarexemshópnum á Keldum unnið að því undanfarin 22 ár að skilgreina sjúkdóminn og þróa ónæmismeðferð við honum.
Fyrr á þessu ári fékk Keldnahópurinn styrk frá Rannís í verkefnið: Verndandi og læknandi ónæmismeðferð gegn sumarexemi í hestum. Í Sviss er nú verið að fylgja eftir 27 hestum, sem voru bólusettir á Keldum og fluttir út í mars 2020. Einnig eru tekin reglulega sýni úr 25 samanburðarhestum. Í Þýskalandi er verið að prófa að meðhöndla hesta með exem með sama bóluefni. Á Keldum voru í haust bólusett folöld og fullorðnir hestar til að bera saman ónæmissvar þeirra með öflugri og nákvæmari aðferðum en áður hefur verið mögulegt. Lausar eru stöður doktorsnema í verkefninu á Keldum og í Bern.
Eliane Marti, Sigríður Jónsdóttir og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir