Rannsóknarátak gegn sumarexemi
Vorið 2000 skipaði þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, að höfðu samráði við Framleiðnisjóð landbúnaðarins, starfshóp til að skipuleggja rannsóknir á sumarexemi í hestum. Formaður starfshópsins var Ingileif Jónsdóttir prófessor í ónæmisfræði.
Hópurinn lagði til að gert yrði stórt rannsóknarátak á sumarexemi í hrossum, sem fyrst og fremst yrði unnið af sérfræðingum á Keldum í samstarfi við rannsóknarhóp í Bern í Sviss svo og í samstarfi við aðra íslenska og erlenda sérfræðinga.
Ákveðið var að aðalmarkmið rannsóknanna yrði að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi en til að ná því þyrfti fyrst að skilgreina ofnæmisvakana í smámýinu og ónæmisferlana í sjúkdómnum.
Rannsóknarátakinu var skipuð stjórn sem í sátu Ágúst Sigurðsson þáverandi rektor Landbúnaðarháskóla Íslands formaður, Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma, Ólafur Andrésson prófessor í erfðafræði, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur á Keldum og Eliane Marti dýralæknir og ónæmisfræðingur við Dýrasjúkdómastofnun Háskólans í Bern í Sviss.
Í kjölfarið eða haustið 2000 hófust rannsóknir á sumarexemi á Keldum, undir stjórn Sigurbjargar og Vilhjálms Svanssonar dýralæknis og undir stjórn Eliane Marti í Bern. Rannsóknirnar voru í upphafi styrktar af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannís og Svissneska rannsóknarsjóðnum og síðan einnig af fleiri aðilum.
Þekking á ofnæminu við upphaf rannsóknarátaksins var takmörkuð auk þess sem mikill skortur á sértækum líf- og prófefnum háði öllum rannsóknum á ónæmissvörun í hrossum á þeim tíma. Því varð að byrja á að framleiða prófefni eða prófa hvort efni sem gerð höfðu verið fyrir aðrar dýrategundir dygðu fyrir hross. Síðan hafa verið framleidd eða fundin mörg nauðsynleg prófefni bæði af okkur og öðrum. Miklar framfarir hafa einnig orðið í aðferðafræði í sameindafræðum, rannsóknum á ónæmiskerfi músa og manna sem og í meðhöndlun á ofnæmi og þróun á bóluefnum og bólusetningum í fólki.