Rannsóknir á mæði-visnuveirunni
Mæði-visnuveiran er retróveira sem sýkir sauðfé, og veldur lungnabólgu (mæði) og heilabólgu (visnu). Veiran barst til landsins í kjölfar innflutnings á fé af Karakúl kyni árið 1933 og olli miklum búsifjum í sauðfjárbúskap.
Tilraunastöðin að Keldum var sett á stofn til þessað rannsaka þessa sjúkdóma og tókst Birni Sigurðssyni fyrsta forstöðumanni tilraunastöðvarinnar og samstarfsfólki hans að einangra veiruna úr sýktum lungum og heilum.
Árið 1954 setti Björn fram kenningar um annarlega hæggenga veirusjúkdóma sem hann byggði á rannsóknum sínum á visnu og mæði. Þessar kenningar hafa staðist tímans tönn, og er þessi flokkur retroveira nefndur lentiveirur (lentus=hægur) eftir kenningum Björns.
Lengi vel var mæði-visnuveiran prótótýpa fyrir lentiveirur, en nú hefur eyðniveiran (HIV), sem einnig er lentiveira, fengið þann sess. Mæði og visnu var útrýmt með niðurskurði og hafa þessir sjúkdómar ekki komið upp hér á landi síðan 1965.
Mikil þekking hefur safnast á Keldum um mæði-visnuveiruna, en rannsóknir á henni nú gegna fyrst og fremst því hlutverki að skilja betur eðli lentiveira, og þar á meðal HIV