Rannsóknir á ónæmiskerfi bleikju
Eldi í bleikju hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum. Ein af undirstöðum farsæls fiskeldis er þekking á eðli sjúkdóma sem komið geta upp, og aðferðum til að greina og meta sjúkdómsvalda og sporna við sýkingum.
Markmið þessa verkefnis var að afla þekkingar á ósérhæfða og sérhæfða ónæmissvari bleikju (Salvelinus alpinus) m.t.t. genatjáningar, gegn tveimur ólíkum bakteríum, þ.e. Aeromonas salmonicida ssp. achromogenes (Asa, kýlaveikibróðir) og Renibacterium salmoninarum (Rs, nýrnaveiki).
Framkæmdar voru sýkingartilraunir með hlutfallslega lágu smitmagni þannig að unnt var að taka sýni yfir það langt tímabil að það náðist að nema ræsingu sérfhæfða ónæmiskerfisins, auk ósértæka kerfisins. Sýkingartilraunin með Rs stóð yfir í 70 daga, en með Asa í 13 daga.
Virkni ónæmiskerfisins í þessum sýkingum var athuguð með því að mæla genatjáningu ákveðinna lykil-ónæmisþátta, bæði með rauntíma-PCR (qPCR) og heilraðgreiningum á umritunarmengi. Þeir þættir sem mældir voru með qPCR voru IL1b, IL8, TGFb1, IL4/13a, IFNg, NADPH, hepcidin, transferrin og CRP1. Greiningarnar á þessum ónæmisþáttum með qPCR sýndi ræsingu ónæmissvars í báðum sýkingum, en gáfu ekki afgerandi upplýsingar um sértæka ónæmissvarið.
Til þess að fá betri heildarmynd af ónæmissvarinu, sér í lagi m.t.t. sértæka svarsins, í sýkingunum voru framkvæmdar heilraðgreiningar á umritunarmengi miltissýna úr þeim. Þannig fengust upplýsingar um tjáningu allra gena, og breytingar sem urðu á þeim vegna sýkinganna. Greining þeirra gagna m.t.t. virkjunar CD4+ T-hjálparfruma sýndi merki um ræsingu Th1 og Th2 fruma í Rs sýkingu. Þegar heilraðgreiningargögnin úr Asa tilrauninni voru greind, þá kom í ljós að þar átti sér stað umtalsverð bæling á ferlum ónæmiskerfisins, sem sást ekki í Rs sýkingunni, og átti það m.a. við um ferla tengda ræsingu Th1 og Th2 svars.
Sú tilraunanálgun sem er lýst í þessari skýrslu er ný. Í henni er í fyrsta skipti lýst heilraðgreiningargögnum úr bleikju sem sýkt er með Rs og Asa. Rannsóknarverkefnið hefur stuðlað að nýrri þekkingu varðandi ónæmissvör bleikju gegn þessum tveimur bakteríum, og stuðlað að myndun stórs gagnabanka genatjáningar, sem því tengist.