Komin er út skýrslan „Upptaka kálfa á ónæmisprótínum úr broddi“ sem tekur saman niðurstöður úr rannsókn sem unnin var á vorönn 2019 sem BSc verkefni Rannveigar Óskar Jónsdóttur í lífefnafræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur Rannveigar voru Dr. Charlotta Oddsdóttir verkefnisstjóri og dýralæknir á Keldum, og Dr. Jóna Freysdóttir prófessor í ónæmisfræði við HÍ og ónæmisfræðideild LSH. Rannsóknin var gerð í fjósi Hvanneyrarbúsins með dyggri aðstoð Egils Gunnarssonar bústjóra og Hafþórs Finnbogasonar sem var fjósameistari Hvanneyrarbúsins þegar rannsóknin var gerð. Fagráð í nautgriparækt veitti styrk til rannsóknarinnar. Niðurstöður mælinga á íslenskum kýrbroddi hafa sýnt að styrkur ónæmisglóbúlíns G (IgG) í broddmjólk sé í lægri kantinum miðað við erlendar rannsóknir og því var mikilvægt að kanna hvort kálfar fái nægilegt magn IgG úr broddinum þar til þeir byrja að framleiða það sjálfir. Mælingar voru gerðar með elísuprófi á blóðsýnum 11 kálfa strax eftir burð, sólarhring seinna og á broddinum sem þeir höfðu drukkið. Mælingar sýndu að meðalstyrkur IgG var 11,54 mg/ml í broddi og 8,02 mg/ml í sermi kálfa sólarhring eftir burð. Niðurstöður sýndu að fylgni var á milli IgG styrks í broddi og IgG styrks í sermi sólarhring síðar fyrir hvern kálf. Áætlað hlutfall IgG sem skilaði sér yfir í blóðrásina af því magni IgG sem þeir drukku var að meðaltali 43%, sem er í hærra lagi miðað við erlendar rannsóknir þó svo meðalstyrkur í sermi væri undir erlendum viðmiðum. Vegna þess að almennt er lítið um sjúkdómsvaldandi bakteríur og veirur í umhverfi íslenskra nautgripa, og IgG er myndað samkvæmt því áreiti sem ónæmiskerfið verður fyrir, er þessi lági styrkur IgG í sermi að öllum líkindum nægilegur miðað við það umhverfi sem þeir eru í. Mælt er með því að bændur noti ljósbrotsmæli til þess að kvarða broddgæði í sinni hjörð og safni frystum broddi í broddbanka. Æskilegt er að gefa kálfum brodd í fleiri skömmtum yfir fyrsta sólarhringinn, og því fyrr sem fyrsti skammtur er gefinn, þeim mun betur skilar IgG sér yfir í blóðrás kálfsins.
Þessu til viðbótar má lesa grein eftir Charlottu í nýjasta Bændablaðinu (26. ágúst 2021) á bls. 47, sem heitir "Gæði íslenskrar broddmjólkur".